Aðeins einn tilboðsgjafi, Permira, er nú eftir um boð í "tele.ring" símafyrirtækið í Austurríki sem er fjórða stærsta farsímafélagið þar í landi. Í síðustu viku greindu austurríkir fjölmiðlar frá því að E.ON samsteypan hafi dregið tilboð sitt til baka, en áður höfðu bæði Apax og Novator, fyrirtæki Björgólfs Thors Björgólfssonar, hætt við að bjóða í tele.ring.

Reuters hefur eftir austurríska blaðinu Die Presse að tilboð Permira hljóði upp á 1,3 milljarða evra eða um 1,57 milljarða dollara. Er þó vitnað til þess að aðrir tilboðsgjafar hafi dregið sig út og því kunni verðmæti fyrirtækisins að hafa lækkað.

Tele.ring var sett í sölu í maí en það er í eigu Western Wireless. Sýndu fjölmargir fjárfestar sem og símafyrirtæki þá áhuga á málinu. Segir Reuters að fjórða stærsta símafyrirtæki Austurríkis hafi dregið sig til baka í fyrri viku. Heimildarmaður Reuters segir þó að þetta kunni að vera leikur í stöðunni sem miði að því að ná verðinu niður. Það geti hins vegar einnig leitt til þess að Western Wireless hætti við söluna á tele.ring.

Tele.ring á og rekur ljósleiðarkerfi sem nær til 98% austurísku þjóðarinnar. Starfsmenn eru 570 og viðskiptavinir fyrirtækisins í farsíma-, upplýsinga- og internetþjónustu eru rúmlega 973.000. Fyrirtækið Western Wireless Corporation (WWC) var stofnað í Bandaríkjunum 1994. Það er nú leiðandi á sviði fjarskipta þar í landi og hefur verið að byggja upp farsímastarfsemi sína síðan 1996 í Bólivíu, á Írlandi, Georgíu, Ghana, Fílabeinsströndinni, Slóveníu og á Haiti.