Novator er ekki meðal aðalfjárfesta í uppbyggingu 3. kynslóðar farsímakerfis í Kanada eins og til stóð.

Í frétt Network World Canada (NWC) er rætt við Anthony Lacavera, framkvæmdastjóra fyrirtækisins Globalive Wireless, en hann fer ásamt Naguib Sawiris, eiganda egypska fyrirtækisins Orascom Telecom, fyrir hópi sem hlaut farsímaleyfi frá stjórnvöldum í Kanada í útboði í sumar.

Í þessum hópi var Novator, félag Björgólfs Thors Björgólfssonar, en það hefur nú dregið sig út úr viðskiptunum. Í frétt NWC er haft eftir Lacavera að hann vilji ekki segja hvenær Björgólfur ákvað að draga sig út úr samstarfinu, en að tækifærið hafi þegar upp var staðið ekki verið nógu stórt fyrir bæði Björgólf og Sawiris.

Uppbygging farsímakerfisins mun kosta um 1,9 milljarða Bandaríkjadala á næstu 10 árum, og þar af er Orascom tilbúið að leggja til 700 milljónir dala.

Frétt Network World Canada.