Fjárfestingafélag Björgólfs Thor Björgólfssonar, Novator, hefur keypt rúmlega 16% hlut í gríska internet- og símafyrirtækinu Forthnet, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins. Talsmaður Novator staðfesti þetta í samtali við Viðskiptablaðið í gær.

Novator hefur keypt 9,87% hlut í Forthnet, sem er skráð á kauphöllinga í Aþenu, af kýpverska bankanum Cyprus Development Bank. Fyrir viðskiptin átti Cyprus Development Bank 10,15% hlut í félaginu. Einnig keypti Novator 6,26% hlut af ítölsku síma- og fjarskiptasamstæðunni Telecom Italia. Talsmaður Forthnet staðfesti að um 16% hlutur í félaginu hefði skipt um hendur en neitaði að gefa upp nöfn á kaupendum og seljendum.

Fjármálasérfræðingar telja að með kaupunum hafi Novator tafið áætlanir gríska símatækjaframleiðandans Intracom um að auka við 20,5% hlut sinn í Forthnet. Ekki er vitað hvað Novator ætlar að gera við hlutinn -- hvort félagið hafi áhuga á að taka virkan þátt í rekstri þess eða hvort Novator sé að nýta sér áhuga Intracom til þess að leysa út gengishagnað ef málin þróast þannig að Intracom gerir yfirtökutilboð í Forthnet.

Hagnaður var af rekstri Forthnet á fyrsta ársfjórðungi miðað við tap á sama tímabili í fyrra. Hagnaður félagsins fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) jókst um 6,8% og nam 3,35 milljónum evra (266 milljónir íslenskra króna). Sölutekjur jukust um 7,7%.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.