Fjárfestingafélagið Novator, sem er í eigu Björgólfs Thors Björgólfssonar, hefur tryggt breytingar á stjórn finnska fyrirtækisins Amer Sports, sem sérhæfir sig í íþróttafatnaði en Novator á um 20% hlut í félaginu.

Amer Sports Corp, tilkynnti nú í vikunni að fyrirtækið myndi tilnefna Martin Burkhalter og Bruno Salzer í stjórn. Þeir eru báðir framkvæmdastjórar hjá stórum fyrirtækjum innan Evrópu. Auk þeirra mun Christian Fischer,austurískur ráðgjafi í stjórnunarmálum einnig taka sæti í stjórn.

Wall Street Journal í Evrópu greinir frá þessu á vef sínum í dag.

Talsmaður Novators segir þessa nýju skipun mæta þeirri þörf fyrirtækja, sem framleiða íþróttafatnað, að fjölga alþjóðlegum sérfræðingum í stjórn.

„Okkur þótti sem stjórn fyrirtækisins væri samansett af of einsleitum hópi finnskra kaupsýslumanna, sem hafa litla alþjóðlega reynslu” segir talsmaður Novators í samtali við WSJ.

Governance for Owners, breskt áhrifafjárferstingafélag sem á hlut í Amer, tekur þessum breytingum einnig opnum örmum. Talsmaður GO segir þessar breytingar geti leitt til framþróunar innan fyrirtækisins.

Talsmaður Amer segir að hugmyndin að þessum breytingum hafi komið fram meðal fjárfesta fyrir um tveim mánuðum síðan. Í yfirlýsingu frá Amer segir, að búist sé við að um 55% hlutafjáreigenda muni samþykkja þessar nýju breytingar á stjórninni.

Áhrifafjárfestingar, sem eru upprunalega bandarískt fyrirbæri, hafa færst umtalsvert í vöxt undanfarið. Nýverið dæmi er af lífeyrissjóði, sem stofnaður hefur verið af Parcom Capital, eignastýringarfélags sem er í meirihlutaeigu hollenska bankans og tryggingafélagsins ING Groep NV, og breska sjóðsins Henderson Global Investors Ltd.

Ekki hefur öllum áhrifafjárfestum tekist að hafa jafnmikil áhrif á evrópsk fyrirtæki eins og raunin er með Amer. Í Hollandi hefur áhrifafjárfestingafélagið Hermes Focus Asset Management farið með mál fyrir dómstóla, sem varðar atkvæðavægi á hluthafafundum hollenska fyrirtækisins ASM International NV.