„Um nokkurt skeið hefur Novator verið í samstarfi við Merril Lynch og hefur nú ráðið það félag til að veita ráðgjöf um framtíðarmöguleika Actavis,“ segir Ásgeir Friðgeirsson, talsmaður Novators, í samtali við Viðskiptablaðið.

Novator er langstærsti eigandi Actavis og hefur félagið nú leitað til bandaríska fjárfestingarbankans og gert samning við hann um að veita ráðgjöf varðandi fjóra framtíðarmöguleika Actavis.

Möguleikarnir eru í fyrsta lagi að Actavis muni yfirtaka annað stórt félag. Í öðru lagi að Actavis sameinist öðru stóru félagi, í þriðja lagi verða selt og fjórði möguleikinn lýtur að því að félagið verði skráð á markað.

Hver svo sem niðurstaðan verður, mun hún ekki koma til framkvæmda fyrr en í fyrsta lagi á næsta ári, að sögn Ásgeirs.

Viðskiptablaðið greindi fyrir skömmu frá 180 milljóa evra hlutafjáraukningu Actavis, sem hluthafar félagsins stóðu að.

Á þeim tímapunkti neituðu forstjóri félagsins og talsmaður Novators því að selja ætti félagið. Að sögn Ásgeirs tengist samkomulagið við Merril Lynch ekki hlutafjáraukningunni, og fjárfestingarbankinn lagði ekki til fé vegna hennar.