Fjárfestingabankinn Citigroup og Landsbanki Íslands munu leiða 500 milljóna evra sambankalán (37 milljarðar íslenskra króna) til að fjármagna að hluta kaup Björgólfs Thors Björgólfssonar á eignarhaldsfélaginu Viva Ventures, samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins.

Ekki er vitað hvort lánið verði einnig nýtt til að endurfjármagna félagið. Landsbankinn mun að öllum líkindum leiða millilagslánið og selja niður á sambankalánamarkaði í Evrópu en upphæð millilagsins hefur ekki fengist staðfest.

Viva Ventures var stofnað af breska fjárfestingasjóðnum Advent International til að halda utan um 65% hlut félagsins og annarra fjárfesta í Bulgarian Telecommunications Company (BTC), sem fjárfestarnir keyptu fyrir 230 milljónir evra (17 milljarðar íslenskra króna) í fyrra.

Novator Telecom Bulgaria, félag í eigu Björgólfs Thor, hefur samið um kauprétt á Viva Ventures og þar með 65% hlut í BTC. Heimildarmenn Viðskiptablaðsins segja að viðskiptin nemi um 100 milljörðum króna.

Björgólfur og samstarfsaðilar hans eiga nú í viðræðum við búlgörsk stjórnvöld um að kaupa Viva Ventures þau settu skilyrði að Advent myndi ekki selja hlut sinn í BTC fyrr en árið 2007. Heimildarmenn Viðskiptablaðsins segja að stefnt sé að fá undanþágu og að Novator Telecom Bulgaria muni eignast Viva Ventures að fullu í janúar á næsta ári.

Markaðsvirði BTC er í kringum 110 milljarðar króna og virði hlutar Viva Ventures í félaginu er um 74 milljarðar. Virði hlutarins hefur því hækkað um 54 milljarða frá því að hann var keyptur í fyrra.