Starfsfólki hjá Novator í Bretlandi hefur verið sagt upp störfum frá og með næstu áramótum. Til stendur að fækka fólki um helming næstu sex mánuði.

Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins hafa um 35 manns starfað í starfsstöð fjárfestingarfélagsins í London. Þetta þýðir að 17 missa vinnuna hið minnsta.

Ásgeir Friðgeirsson, talsmaður Björgólfs Thors Björgólfssonar, aðaleiganda Novators, segir í samtali við blaðið að minni umsvif í Bretlandi endurspegli þróun á alþjóðlegum mörkuðum. Fjárfestingarverkefnum hafi fækkað og viðskipti dregist saman á flestum sviðum. Því sé ljóst að hægjast muni á allri starfsemi Novators í náinni framtíð.

Björgólfur Thor hefur lýst sjálfum sér sem umbreytingafjárfesti. Aðaleignir Novators núna eru Actavis, tvö farsímafélög í Póllandi og eitt í Finnlandi. Auk þess á Novator fasteignir og rekur tvo sjóði; fjárfestingarsjóð (Private Equity Fund) og vogunar- og skuldasjóð (Novator Credit Fund) sem einbeitir sér að lánamörkuðum.