Skuldasjóður (e. credit fund) Novators, fjárfestingafélags Björgólfs Thors Björgólfssonar, hefur sölutryggt víkjandi lán að virði rúmlega 80 milljónir punda (11 milljarðar króna) til að styðja við yfirtöku stjórnenda á bresku kaffihúsakeðjunni Caffé Nero, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins.

Stjórnendur kaffihúsakeðjunnar hafa samþykkt að kaupa Caffé Nero-keðjuna fyrir 225 milljónir punda, sem samsvarar 41 milljarði króna, og unnið er að afskráningu félagsins úr kauphöllinni í London.

Heimildarmaður Viðskiptablaðsins segir sjóðinn hafa sölutryggt millilagsfjármögnun (e. mezzanine) og PIK-nótu (e. payment in kind) ásamt fjárfestingasjóðunum Och-Ziff og Noonday og að áætlað sé að selja hluta lánsfjármögnunarinnar til annarra fjárfesta. Bank of Scotland, sem unnið hefur mikið með Baugi í Bretlandi, hefur einnig samþykkt að sölutryggja 88 milljónir punda af veðlánum (e. senior debt) til að fjármagna yfirtökuna.

Víkjandi lán bera hærri vexti en veðlán við skuldsettar yfirtökur þar sem tryggingar eru minni. Almennt er að kjörin séu 1.100 punktar yfir millibankavöxtum og sagði heimildarmaður blaðsins innan Novators það ekki fjarri lagi.

Heiðar Már Guðjónsson, sem áður sérhæfði sig í verðtryggðum skuldabréfum hjá Kaupþingi banka í New York og Glitni (Íslandsbanka) í London, stýrir skuldasjóði Novators. Adrian Kingshott var síðan ráðinn til sjóðsins frá Goldman Sachs og er hann staðsettur í Bandaríkjunum.

Heimildarmenn Viðskiptablaðsins segja að í fyrstu hafi sjóðurinn samtals verið um 200 milljónir Bandaríkjadala, sem samsvarar um 14 milljörðum króna, en að stefnt hafi verið að stækka hann í 400 milljónir dala. Stærð sjóðsins hefur ekki fengist staðfest.