Það virðist hreint ekki heiglum hent fyrir stóra hluthafa að koma mönnum að í stjórnum finnskra fyrirtækja og er skemmst að minnast átakanna hjá finnska fa rsímafélaginu Elisa.

En það er víðar en þar sem virðist vera mjög svo takamarkaður áhugi að hleypa stórum íslenskum og um leið erlendum fjárfestum til áhrifa; þannig hefur finnski íþróttavöruframleiðandinn Amer Sports Corporation engan áhuga á að leiða fulltrúa Novators, fjárfestingafélags Björgólfs Thors Björgólfssonar, til öndvegis hjá sér þótt Novator sé þar stærsti einstaki hluthafinn með liðlega fimmtungshlut.

Aðalfundur haldinn á morgun

Aðalfundur Amer Sports verður haldinn á morgun, miðvikudag, og fram kemur í frétt Dagens Industri að Novator sækist eftir því að fá þrjá af sjö mönnum í stjórnina. Valnefnd Amer hefur á hinn bóginn lagt til að núverandi stjórn með Anssi Vanjoki, forstjóra Nokia í fararbroddi, verði endurkjörin og mun hún ekki hafa haft fyrir því að ráðfæra sig við Novator þegar sú ákvörðun var tekin.

Því virðist vera nokkuð ljóst að stefna kann í átök á fundinum á morgun um stjórnarkjör; þeir Novatorsmenn munu hafa sett sig í samband við aðra stóra hluthafa í Amer Sports um möguleikana á því að bjóða fram fulltrúa hluthafa í stjórn sem hefðu bæði þekkingu og reynslu á sviði smásölu en afar lítið ku fara fyrir slíkri þekkingu innan núverandi stjórnar Amer.

Ekkert er þó vitað um hvort Novator muni, vafalaust í samstarfi við aðra stóra hluthafa, leggja fram nýjan lista til stjórnarkjörs eða hvort félagið láti sér nægja að gera tillögu um að fá menn í stjórn Amer.