Gengi hlutabréfa danska lyfja- og ækningavörufyrirtækisins Novo Nordisk hefur lækkað mjög skarpt á danska hlutabréfamarkaðnum í morgun eftir að fréttir bárust af því að bandarísk heilbrigðisyfirvöld hefðu hafnað skráningarumsókn fyrirtækisins á tveimur tegundum af insúlíni, Tresiba og Ryzodeg.

Í frétt Børsen segir að á fyrstu tveimur mínútum viðskiptadagsins hafi bréf Novo Nordisk lækkað um ein 16,3%, og fór gengið því úr 1.070 dönskum krónum á hlut í 896 krónur. Felur þetta í sér að markaðsvirði Novo Nordisk hefur lækkað um 79 milljarða danskra króna, andvirði um 1.800 milljarða íslenskra króna, á örskotsstundu.

Lækkunin kemur ekki á óvart í ljósi fréttanna af ákvörðun bandarískra yfirvalda. Sydbank gerir nú ráð fyrir því að markaðssetning lyfjanna á bandaríkjamarkað frestist um allt að þrjú ár.