Novomatic Lottery Solutions á Íslandi mun loka undir lok ársins, en hjá fyrirtækinu starfa nú um 70 manns hér á landi í starfstöð fyrirtækisins í Holtasmára í Kópavogi að því er RÚV greinir frá.

Skrifstofan austurríska fyrirtækisins hér á landi byggir á grunni fyrirtækisins Betware sem selt var árið 2013 , en kaupverðið var sagt vera á bilinu 2 til 3 milljarðar króna. Fyrirtækið hannar og þjónustar hugbúnað fyrir lottófyrirtæki.

Skrifstofan velti 3,4 milljörðum króna hér á landi árið 2017, sem var samdráttur frá árinu 2016 þegar hún var 3,7 milljarðar að því er Frjáls verslun greindi frá . Á sama tíma jókst þó hagnaðurinn af starfseminni hér úr 452,8 milljónum í 645,4 milljónir eins og Viðskiptablaðið sagði frá í sumar .

Í apríl sagði félagið upp 18 starfsmönnum hér á landi, en eins og Viðskiptablaðið sagði frá var það af 112 manns sem þá störfuðu hjá félaginu. Var það hluti af stærri uppsögnum hjá félaginu, sem einnig dró úr starfsemi í Serbíu og á Spáni.