337 milljóna króna tap varð af fjárfestingastarfsemi TM á þriðja ársfjórðungi, sem nánast alfarið má rekja til niðurfærslu á fasteignasjóðnum Gamma Novus um 311 milljónir, en sem kunnugt er var nánast allt eigið fé hans afskrifað. Þetta kemur fram í árshlutauppgjöri félagsins fyrir fjórðunginn.

Samsett hlutfall fjórðungsins var hinsvegar 94,9% og því hagnaður af vátryggingastarfsemi félagsins, og eigin iðgjöld jukust um 3,1% milli ára. Aðrir rekstrarliðir breyttust lítið frá sama fjórðungi síðasta árs, og endanleg rekstrarafkoma fjórðungsins var neikvæð um 251 milljón króna.

Haft er eftir Sigurði Viðarssyni, forstjóra TM, að fjárfestingatekjur séu mjög sveiflukenndar, eins og glöggt sjáist á methagnaði af fjárfestingastarfsemi á öðrum ársfjórðungi, sem var sá mesti frá skráningu.