Íslenska svefnrannsóknarfyrirtækið Nox Medical gefur í dag út stærstu vöru sína til nokkurra ára, Nox T3s. Tækið býr yfir nýrri svefngreiningaraðferð sem byggir á gervigreind og kallast Nox BodySleep.

Nox Medical hefur umbylt svefnrannsóknum með því að hanna, þróa og framleiða rannsóknartæki og -aðferðir sem gera notendum meðal annars kleift að framkvæma svefnrannsóknir heima hjá sér.

„Í meira en áratug hafa vörur Nox Medical verið leiðandi í heimasvefnsrannsóknum,“ segir Pétur Már Halldórsson, framkvæmdarstjóri Nox Medical. „Nýja varan, Nox T3s, er eins og undanfari þess, hannað til að vera bæði návæm og skilvirk. Nox T3s sameinar snjalltækni og einfaldleika og mun breyta því hvernig sérfræðingar framkvæma prófanir, greiningar og meðhöndla einstaklinga“.

Nox T3s notast við Nox BodySleep svefngreiningaraðferð, sem er nýjasta uppfinning Nox Medical. Þessi aðferð gerir rannsakendum kleift að meta svefn notenda að heiman, með þægindi notenda að leiðarljósi. Nox BodySleep greiningin notast við gervigreind til að áætla svefnstig notenda, auk þess að greina þætti eins og öndun og fleira.

„Sérfræðingar hafa í gegnum tíðina ekki getað framkvæmt nákvæmar rannsóknir þegar sjúklingur sefur heima,“ segir Pétur Már. „Með Nox T3s geta þeir ekki einungis framkvæmt heimarannsóknir á sjúklingum, heldur geta þeir verið vissir um að niðurstöðurnar eru nákvæmar og geta ákvarðað viðeigandi einstaklingsbundnar meðferðir út frá þeim.“

„Ég er stoltur af teyminu sem kom að þróun og útgáfu þessarar vöru. Við létum ekkert stöðva okkur, hvorki heimsfaraldur, né önnur vandamál sem komu upp á meðan þróun stóð,“ segir Pétur Már. „Við erum einnig þakklát íslenskum stjórnvöldum fyrir að horfa til hugvitsiðnaðarins og skapa umhverfi svo nýsköpun og hugvit fái sín notið,“ segir Pétur Már.

Nox Medical er 14 ára gamalt fyrirtæki sem framleiðir vörur til  svefnrannsókna. Félagið hefur verið leiðandi í tækni og tækjabúnaði til svefnrannsókna í heiminum en vörur fyrirtækisins eru nú seldar til 48 landa og í sex heimsálfum.