Nox Medical hlaut Nýsköpunarverðlaun Rannís, Nýsköpunarmiðstöðvar og Útflutningsráðs árið 2010 sem afhent voru á Nýsköpunarþingi í morgun. Nox Medical var stofnað í júní 2006 með það að markmiði að hanna svefngreiningarbúnað sem hentaði jafnt börnum sem fullorðnum, en á þeim tíma var ekki til búnaður sem sérstaklega hafði verið hannaður með börn í huga.

Í umsögn valnefndar kemur fram að fyrirtækið hefur náð þeim árangri á skömmum tíma að þroskast frá engu öðru en hugviti og reynslu starfsmanna til arðbærs lækningavöruframleiðanda með vörur sem seldar eru á alþjóðamarkaði. Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra afhenti Sveinbirni Höskuldssyni framkvæmdastjóra Nox Medical verðlaunin í morgun.

Í tilkynningu kemur fram að Nýsköpunarverðlaun Rannís, Útflutningsráðs og Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands eru veitt fyrirtækjum sem hafa þótt skarað fram úr í þróun nýrrar vöru eða þjónustu sem byggð er á rannsókna- og vísindastarfi og náð hefur árangri á markaði. Nýsköpunarverðlaunin voru fyrst veitt árið 1994 en tilgangur þeirra er að vekja athygli á þeim mikilvægu tengslum sem eru á milli aukinnar verðmætasköpunar í atvinnulífinu og rannsókna og þekkingaröflunar. Á meðal fyrirtækja sem hlotið hafa Nýsköpunarverðlaunin eru ORF Líftækni (2008), CCP (2005), Bláa lónið (2000) og Íslensk erfðagreining (1998).

„Við val á verðlaunahafa er litið til þess hvort um sé að ræða nýtt sprotafyrirtæki, hvort það sé byggt á nýskapandi tækni og hugmynd og sé kröfuhart á þekkingu. Þá er lagt mat á virðisauka afurða og hvort fyrirtækið hafi náð árangri á markaði. Metið er hvort líkur séu á að fyrirtækið haldi velli og hvort stjórnun nýsköpunar sé til eftirbreytni. Að lokum er metið hvort fyrirtækið sé hvatning fyrir aðra að feta sömu slóð," segir í tilkynningu.

Hófu starfsemi 2006

„Nox Medical hafði frá stofnun 2006 skýr markmið og tímaramma. Fyrirtækið fékk öndvegisstyrk frá Tækniþróunarsjóði haustið 2006 og ásamt því að hanna vöruna hóf það strax markaðssetningu til stórra dreifingaraðila og samstarf við viðurkennda framleiðendur lækningavara. Á vormánuðum 2008 náðist sá áfangi að frumgerðir vörunnar voru tilbúnar og stóðust ytri vottanir eftirlitsaðila. Sama ár fékkst söluleyfi í Evrópu og í Bandaríkjunum. Framleiðsla á búnaðinum hófst í janúar 2009 í Kína og náði fyrirtækið í mars 2009 dreifingarsamningi við eitt af stærstu dreifingarfyrirtækjum lækningavara í heiminum, Cardinal Health, og hófst sala á sama tíma. Þannig fer framleiðslan fram í Kína, miðstöð sölunnar er í Bandaríkjunum og aðgerðum er stjórnað frá Íslandi. Fyrirtækið er með aðsetur í Kími – Medical Park sem er frumkvöðlasetur fyrir fyrirtæki í heilbrigðistækni og skyldum greinum. Að Kími stendur Nýsköpunarmiðstöð Íslands í samstarfi við iðnaðarráðuneytið, Háskólann í Reykjavík, Háskóla Íslands og Summit ehf.

Nú starfa átta starfsmenn hjá fyrirtækinu og fóru tekjur þess af tækjasölunni strax yfir 170 milljónir íslenskra króna á fyrsta söluári sem gerði fyrirtækið sjálfbært. Stefnir fyrirtækið á að tvöfalda þá upphæð og gott betur á þessu ári," segir í tilkynningu í tilefni verðlaunaafhendingarinnar.