Íslenska svefnrannsóknarfyrirtækið Nox Medical hlaut 2 milljóna evra styrk eða því sem jafngildir um 238 milljón krónum, ef miðað er við gengi dagsins í dag, frá Horizon 2020 áætlun Evrópusambandsins. Styrkurinn nýtist til að þróa næstu kynslóð svefnrannsókna á næstu árum. Fyrirtækið skákaði þúsundum fyrirtækja í Evrópu þegar það fékk styrkinn. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Fyrirtækið vinnur að lausn svefnvanda - sem er alvarlegt vandamál og undirliggjandi ástæða alvarlegra sjúkdóma. Það byggir að mestu leyti á íslensku hugviti og hlaut Útflutningsverðlaun forseta Íslands í ár. 50 manns starfa hjá fyrirtækinu. Nox Medical hlaut Frumkvöðlaverðlaun Viðskiptablaðsins fyrir árið 2015.