Hagnaður Tryggingamiðstöðvarinnar árið 2004 var 1.980 mkr. eftir skatta, en var 1.424 mkr. árið áður. Í frétt frá félaginu kemur fram að vátryggingareksturinn hafi ekki gengið nógu vel á árinu. Megin skýringin á auknum hagnaði félagsins er óvenju mikill hagnaður af sölu fjárfestinga á árinu. Hagnaður af vátryggingarekstri er 202 mkr. en hagnaður af fjármálastarfsemi er 2.305 mkr.

Hagnaður af fjármálarekstri er 2.305 mkr. en var 1.158 mkr. árið áður. Tap af hlutdeildarfélögum er 41 mkr., en hagnaður var 57 mkr. árið áður. Hagnaður af rekstri dótturfélaga er 16 mkr. samanborið við 17 mkr. árið áður. Hagnaður af sölu fjárfestinga er 2.605 mkr. en var 1.261 mkr. árið áður. Fjárfestingartekjur yfirfærðar á vátryggingarekstur eru 1.001 mkr. samanborið við 897 mkr. árið áður. Undir liðnum önnur gjöld er gjaldfærsla á afskrift af viðskiptavild vegna kaupa á Tryggingu hf. að fjárhæð kr. 111 mkr.

Hagnaður af vátryggingarekstri á árinu 2004 er 202 mkr. en var 649 mkr. árið áður. Eigin iðgjöld tímabilsins eru 4.939 mkr. en voru 5.212 mkr. árið áður sem er lækkun um 5,2%. Tjónaþungi er í meira lagi, eigin tjón á móti eigin iðgjöldum eru 92,5% en voru 84,6% árið áður. Lækkun iðgjalda og hækkun tjónahlutfalls má að mestu rekja til lækkunar á iðgjaldstöxtum, einkum í ökutækjatryggingum. Eitt stórt tjón lenti á félaginu á árinu þegar m/s Baldvin Þorsteinsson EA strandaði á Skarðsfjöru. Þetta tjón er nú uppgert, tjónsfjárhæð er 189 mkr., en eigin hlutur félagsins er 63 mkr.

Hagnaður af eignatryggingum er 60 mkr. en tap hefur verið á rekstri greinarinnar á undanförnum árum. Hagnaður af rekstri sjó- og farmtrygginga er 90 mkr. og tap af rekstri ökutækjatrygginga er 28 mkr., en þær voru reknar með hagnaði næstu þrjú ár þar á undan. Hagnaður af ábyrgðartryggingum er 50 mkr. sem er nokkru lægra en árið áður. Hagnaður af rekstri slysa- og sjúkratrygginga eru tæpar 10 mkr. sem er verulega betra en árið áður þegar tap var 337 mkr.