Þegar birgðatölur voru birtar á miðvikudaginn í Bandaríkjunum kom í ljós að þær höfðu dregist saman um 5,4 milljónir tunna, en sérfræðingar höfðu spáð minnkun birgða um 2,5 milljónir tunna.

Að sögn Magnúsar Ásgeirssonar, innkaupastjóra eldsneytis hjá Olíufélaginu, höfðu sérfræðingar spáð aukningu á hráolíu um 1,8 milljónir tunna, en það varð minnkun um 0,8 milljónir tunna og einnig varð minnkun á birgðum á milliþykkum olíum.

"Ofan á þessar tölur bætist óvissa vegna Íransmálsins auk samdrátts í útflutningi á hráolíu frá Nígeríu, einkum fyrir Bandaríkjamarkað, en hráolían frá Nígeríu hentar einkar vel til bensínframleiðslu á þeim markaði sem þyrstir mjög eftir bensíni," segir Magnús.

Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn lýsti yfir áhyggjum sínum í gær um að hækkandi eldsneytisverð myndi hafa alvarleg áhrif ef hækkunin stæði lengi og ræddi möguleika á aukinni skattlagningu eldsneytis í Bandaríkjunum til að draga úr notkun þess þar.

OPEC ráðherrarnir munu funda á næstu dögum í Doha í Quatar og ræða stöðu olíumarkaða. Merill Lynch spáði því í gær að bensínverð þessa árs yrði hæst í næsta mánuði, enda myndi þá verða mjög mikil eftirspurn og mikið flutt af bensíni frá Evrópu til Bandaríkjanna. Síðan myndi verðið fara lækkandi. Magnús benti á að hreinsanir og endurbætur á olíuhreinsunarstöðvum fara oftast fram í febrúar og mars, en á þessu ári hafa þær dregist á langinn vegna þess, að meiri háttar endurbygging og breyting hefur orðið á mörgum olíuhreinsunarstöðvum þar sem nýjar gæðakröfur taka gildi í Bandaríkjunum 1. júní.

Magnús sagði að þar sem viðhaldi og endurbótum á olíuhreinsunarstöðvum í Bandaríkjunum hefur seinkað, þá hefur það haft veruleg áhrif á framboð á bensíni, að því er talið er um 12% og að það muni ekki komast í lag fyrr en seint í þessum mánuði eða snemma í maí og þá muni mikið bensín koma inn á markaðinn. Á síðustu tveimur mánuðum hefur nýting í olíuhreinsunarstöðvum í Bandaríkjunum verið um 85,7% í stað 90,8% eins og algengt er og það er því um 5% minna en í venjulegu árferði. Þess skal getið að margar olíuhreinsunarstöðvar í Bandaríkjunum eru enn óstarfhæfar eftir fellibylji og flóð síðasta árs, en reyndar hafa sumir veðurfræðingar vestra spáð öðru áfalli í sumar.

Heimsmarkaðsverð á bensíni varð hæst 1. september á sl. ári, en þá komst það í 862 dollara og þá var hráolíuverðið 66,6 dollarar, en hráolíuverðið var komið í 74 dollara 20. apríl og tonnið af bensíni kostaðo rúma 700 dollara.