Líklegt er að japanska flugfélagið Japan Airlines (JAL), sem nú riðar á barmi gjaldþrots, hætti samstarfi við bandaríska flugfélagið American Airlines og hefji samstarf við annað bandarísk flugfélag, Delta Air Lines.

Frá þessu er greint á vef Bloomberg fréttaveitunnar. Samkvæmt frétt Bloomberg má þykja ólíklegt að Delta hafi áhuga á að kaupa hlut í félaginu en algengt er að flugfélög myndi samstarf á milli heimsálfa, m.a. um bókunarleiðir og pakkaferðir.

Delta, sem er eitt stærsta flugfélag heims eftir sameininguna við Northwest Airlines í fyrra, mun samkvæmt heimildum Bloomberg, greiða JAL um 300 milljónir dala fyrir samstarfið og í nokkurs konar skaðabætur fyrir samstarfsrofið við American Airlines sem mun kostað félagið minni upphæðir.

Með samstarfi við JAL getur Delta náð nokkrum hluta af umferð JAL til Bandaríkjanna auk þess sem horft er til þess að fjölga bókunarmöguleikum ferðamanna frá Bandaríkjum í Japan og Kína. Með samstarfinu getur JAL einnig minnkað og jafnvel hætt flugi til Bandaríkjanna en þeir flugleggir hafa verið þung byrgði á félaginu.