Samkvæmt skoðanakönnun sem MMR gerði fyrir Viðskiptablaðið er telur nær helmingur fyrirtækjastjórnenda að endursemja þurfi um skuldir sinna fyrirtækja í kjölfar efnahagshrunsins og fleiri hafa þá afstöðu á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu.

MMR gerði könnun meðal 300 stærstu fyrirtækja landsins og var hún birt í Viðskiptablaðinu fyrir helgi. Þar var spurt: „Hefur þurft eða telur þú að það þurfi að endursemja um skuldir fyrirtækis þíns vegna efnahagshrunsins?" Af öllum þeim sem svöruðu spurningunni töldu 47,4% sig þurfa að endursemja um skuldir sinna fyrirtækja, en 52,6% svöruðu spurningunni neitandi. Af öllum þeim sem svöruðu tóku 96,5% afstöðu til spurningarinnar en 3,5% tóku ekki afstöðu.

Stærri fyrirtækin verr stödd

Það eru einkum stjórnendur stærri fyrirtækjanna sem voru með yfir milljarð í veltu sem töldu að endursemja þyrfti um skuldir. Í hópi fyrirtækja með veltu á bilinu 1.000 - 10.000 milljónir króna sögðu 53,6% já við þessari spurningu og 53,8% stjórnenda fyrirtækja með veltu yfir 10.000 milljónir króna. Einungis 30% stjórnenda fyrirtækja með veltu undir 1.000 milljónum svöruðu spurningunni játandi.

Verri staða á landsbyggðinni

Þá vekur líka athygli í könnun MMR að fleiri stjórnendur landsbyggðafyrirtækja tölu nauðsynlegt að endursemja um skuldir en á höfuðborgarsvæðinu, eða 50% á móti 45,5% en 4,5% tóku ekki afstöðu í þessum skilgreindu hópum.

Færri starfsmenn betri staða

Þegar skoðuð er afstaða eftir fjöldastarfsmanna kemur í ljós að fyrirtæki með frá 51 - 100 starfsmenn töldu brýnast að endursemja um skuldir, eða 60% og 50,5% í fyrirtækjum með 101 eða fleiri starfsmenn. Einungis 36,5% stjórnenda í mannaflsfærri fyrirtækjunum töldu þörf á endursamningu á sínum lánum. Þá kom líka í ljós að tekjuhæstu stjórnendurnir með yfir 800.000 krónur á mánuði töldu brýnna að endursemja um skuldir en þeir sem höfðu lægri tekjur. Lítill munur var hins vegar á afstöðu framkvæmdastjóra og forstjóra og annarra yfirmanna í fyrirtækjunum sem spurðir voru.