Að meðaltali voru 11.700 manns án atvinnu og í atvinnuleit á þriðja ársfjórðungi í ár. Það er 6,4% vinnuafls.

Í nýjum tölum hagstofunnar um vinnumarkaðinn á þriðja ársfjórðung kemur fram að atvinnuleysi mældist 6,1% hjá körlum og 6,8% hjá konum. Atvinnulausum fjölgaði um 800 manns frá þriðja ársfjórðungi 2009.

Atvinnuleysi var mest meðal fólks á aldrinum 16-24 ára, eða 11,1%. Hjá hópnum 24-54 ára var atvinnuleysi 6% og 3,8% hjá 55-74 ára.

Atvinnuleysi á höfuðborgarsvæðinu á þriðja ársfjórðungi var 8% en 3,6% utan þess.

Af þeim sem voru atvinnulausir á þriðja ársfjórðungi 2010 höfðu 600 fengið vinnu sem átti að hefjast síðar, eða 4,7%. Til samanburðar höfðu 800 manns fengið vinnu, eða 7,4%, á þriðja ársfjórðungi 2009.

Á þriðja ársfjórðungi 2010 höfðu um 2.700 manns verið atvinnulausir í 12 mánuði eða lengur, eða 23,1% atvinnulausra, en voru á sama tímabili 2009 um 800 manns, eða 7,1%.