Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins hefur gert samning um kaup á hlutafé í fyrirtækinu Gangverði. Fyrirtækið, sem var stofnað í fyrra,  þróar hagnýt tölfræðilíkön sem nýtast á sviði fjármála, markaðsviðskipta og hagfræðilegrar greiningar. Hjá Gangverði starfa fimm sérfræðingar á sviði hagfræði, stærðfræði og tölvunarfræði.

Hvorki hefur verið gefið upp hversu stóran hlut sjóðurinn kaupir í Gangverði né hvert verðmæti hans er.

Fram kemur í tilkynningu að fyrirtækið hafi þróað vöruna Verðvísi fyrir fagaðila í eignaviðskiptum og fjármögnun sem gefur betri upplýsingar en áður hafa verið aðgengilegar um verð og verðþróun fasteigna og bifreiða. Upplýsingarnar nýtast m.a. við mat á umsóknum um lán með veðum í slíkum eignum og til umsýslu og eftirlits með lánasöfnum og verðbréfum sem byggja á veði í slíkum eignum.

Þá segir í tilkynningunni að Sigurður Ingólfsson, framkvæmdastjóri og stofnandi Gangverðs hafi unnið hjá Norræna fjárfestingarbankanum í Helsingfors á árunum 1998 til 2003 en rekið eigið ráðgjafarfyrirtækið Áhættustýringu eftir það.