Bandaríska fyrirtækið Yahoo hefur greint frá því að bandaríska ríkið hafi hótað því dagsektum að fjárhæð 250 þúsund bandaríkjadala léti það ekki af hendi upplýsingar um notendur sína. BBC News greinir frá þessu.

Þjóðaröryggisstofnun Bandaríkjanna (NSA) krafðist þess af fyrirtækinu að það léti í té upplýsingar um notendur sína í samræmi við eftirlitsreglur sem Edward Snowden svipti hulunni af á síðasta ári. Yahoo neitaði hins vegar og sagði framlagningu upplýsinganna stangast á við stjórnarskrá Bandaríkjanna.