Ánægja einstaklinga í viðskiptum við banka mælist nú minni á Íslandi og í Noregi en annars staðar á Norðurlöndum, ánægðastir eru viðskiptavinir banka í Finnlandi, að því er fram kemur í niðurstöðum Íslensku ánægjuvogarinnar.

Mælingin nær til banka á Norðurlöndunum og í Eystrasaltsríkjunum og hófst fyrir árið 1999. Aðstendur Íslensku ánægjuvogarinnar eru Capacent Gallup, Samtök iðnaðarins og Stjórnvísi. Íslenska úrtakið var 250 viðskiptavinir hvers banka sem valdir voru af tilviljun úr þjóðskrá. Mælingin endurspeglar ánægju almennings í hópi viðskiptavina bankanna, en nær ekki til fyrirtækja og stofnana.

Fyrstu þrjú ár könnunarinnar voru íslensku bankarnir með ánægðustu viðskiptavinina en jafnt og þétt hefur dregið úr ánægjunni og er íslenski bankamarkaðurinn nú með næst lægstu ánægjuvogina. Þetta er þriðja árið í röð sem ánægjuvog íslenska bankamarkaðarins lækkar og nemur lækkun um 6,2 stig frá 1999. Hún er nú 70,5 stig og hefur ekki verið lægri. Ánægjuvog norskra banka er hálfu stigi lægri en sú  íslenska.

SPRON er með ánægðustu viðskiptavinina og hækkar um eitt stig milli ára, aðrir bankar og sparisjóðir standa í stað eða lækka. Sparisjóðurinn skipar annað sætið með ánægðustu viðskiptavinina. Árin 1999 til 2005 var Sparisjóðurinn með hæstu einkunina. Landsbankinn er í því þriðja, Glitnir í fjórða og því næst kemur Kaupþing banki.