Á síðastliðnum tveimur vikum hefur Úrvalsvísitalan lækkað um 3,2% eins og kemur fram í Vegvísi Landsbankans. Lækkun Úrvalsvísitölunnar hélt áfram í gær en vísitalan lækkaði um 3% í viðskiptum dagsins og er þetta næst mesta lækkun hennar á einum degi frá því í nóvember 2000. Lækkunin gekk yfir allan markaðinn að tveimur félögum undanskildum. Flugleiðir (6,6%) og SÍF (1,4%) hækkuðu en ástæðan að baki þessum hækkunum er sú að Flugleiðir tilkynntu eftir lokun markaða á föstudaginn um kaup á 8,4% hlut í EasyJet og SÍF tilkynnti um kaup á franska matvælaframleiðandanum Labeyrie Group.

Önnur félög á markaðnum héldust óbreytt eða lækkuðu en þau félög sem lækkuðu mest voru Bakkavör (-4,5%), KB banki (-3,9%) og Kaldbakur (-3,4%).