Það er næsta þings að ákveða hvernig sumarþingi verður háttað, segir Guðbjartur Hannesson, forseti Alþingis, þegar hann er spurður út í þinghaldið eftir kosningar.

Kosningar fara fram 25. apríl nk. Venjan er sú að þing fari heim allt að tveimur mánuðum fyrir kosningar til að gefa svigrúm til kosningabaráttu. Líklegt er þó að þing muni starfa lengur nú, þótt kosningar séu á næsta leiti, jafnvel út mars.

Þingfrestun hefur þó ekki verið ákveðin.

Guðbjartur segir að venjan sé sú að þing komi saman fljótlega eftir kosningar, og fundi í nokkra daga, til að ganga frá m.a. kosningu í fastanefndir þingsins og fleira. Eftir kosningarnar 2007 kom þing til dæmis saman í lok maí og stóð fram í miðjan júní. Þá var fundum þingsins frestað fram á haust.

Hann segir að það sé næsta þings að ákveða hvernig þessum málum verði háttað eftir kosningarnar í apríl.