Tölur um vöxt breska hagkerfisins, á fyrsta ársfjórðungi, voru birtar í fyrradag. Talið er að hagvöxtur svæðisins hafi verið 0,5% á fjórðungnum. Um endurskoðaðar tölur að ræða en í lok apríl var talið að vöxtur svæðsins hafi numið 0,6%. Árlegur hagvöxtur hefur því minnkað í 2,7% og hefur vöxtur vergrar landsframleiðslu ekki verið lægri í tvö ár eins og kemurfram í frétt í Viðskiptablaðinu í dag.

Vöxtur einkaneyslu hægði á sér og óx aðeins um 0,3% á fyrsta ársfjórðungi, eða um 2% síðastliðna 12 mánuði. Á fyrsta ársfjórðungi óx breska hagkerfið því jafn hratt og hagkerfi evrusvæðisins. Bresk yfirvöld spá að hagvöxtur þessa árs verði 3,5% en hagvöxtur fyrsta ársfórðungs bendir til þess að sú spá gangi ekki eftir.

OECD ríkin búast við töluvert minni hagvexti í Bretlandi en stofnunin lækkaði nýlega hagvaxtarspá sína fyrir Bretland úr 2,6% í 2,4%. Sérfræðingar telja þetta vera til marks um að stýrivextir Englandsbanka verði ekki hækkaðir á næstunni og telja sumir þeirra að næsta skref bankans verði að lækka vexti. Gangi það eftir mun stýrivaxtamunur milli Bretlands og Bandaríkjanna hækka.