Í nýrri skýrslu Sameinuðu þjóðanna kemur fram að hvergi er betra að búa en í Noregi og næstbest að búa á Íslandi, lífsgæði í Afríku hafa hinsvegar hrapað vegna alnæmisfaraldurs sem geisar nú þar.

Efstu tíu ríkin á listanum eru: Noregur, Ísland, Ástralía, Írland, Svíþjóð, Kanada, Japan, Bandaríkin, Sviss og Holland.

Mælingin, Human Development Index, hefur verið framkvæmd árlega síðan 1990 og nær til allra þjóða þar sem gögn eru fáanleg.

Við gerð listans eru ekki aðeins teknar til meðaltekjur einstaklinga, heldur einnig menntunarstig, heilsugæsla og lífslíkur. Ekki kemur þó á óvart að þjóðir sem efstar eru á listanum teljast efnaðar, þar sem því fylgir yfirleitt betri heilsa og aukin menntunartækifæri.

Íbúar Noregs eru til að mynda 40 sinnum ríkari en íbúar Níger, sem eru neðst á listanum, í 177. sæti. Lífslíkur þeim 31 ríkjum sem lífsgæði mælast minnst er aðeins 46 ár, sem er 32 árum minna en í auðugri þjóðum, segir í skýrslunni.

Einhverjar þjóðir eru þó undantekningar á þessu, Víetnam er til dæmis fátæk þjóð en er þó hærri á listanum en þjóðir sem eru með hærri meðaltekjur. Í Bahrain eru meðaltekjur helmingi hærri en í Chile, en er þó neðar á listanum þar sem menntun og læsi í landinu er mjög lítið, segir í skýrslunni.

Síðan um 1990 hefur lífsgæðum í Afríkuríkjum hrakað verulega þar sem alnæmisfaraldur sem þar geisar nú hefur minnkað lífslíkur verulega.

Neðstu tíu ríkin á listanum eru: Mósambík, Búrúndi, Eþíópía, Chad, Mið-Afríku lýðveldið, Guinea-Bissau, Burkina Faso, Malí, Sierra Leone og Níger.