Ef þróunarlöndin samþykkja Dominique Strauss-Kahn, fyrrum forsætisráðherra Frakklands, sem framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMF), gæti næsti yfirmaður sjóðsins verið frá þróunarlandi, segir Jean-Claude Juncker, forsætisráðherra Lúxemborgar.

"Næsti framkvæmdastjóri IMF verður örugglega ekki evrópskur. Það ríkir almenn vitund meðal evruríkjanna og fjármálaráðherra Evrópusambandsins að Strauss-Kahn myndi líklega verða síðasti evrópski framkvæmdastjóri IMF í náinni framtíð," segir Juncker.

Evrópusambandið hefur verið gagnrýnt nokkuð fyrir að reyna að stjórna stól IMF, án þess að tillit sé tekið til vaxandi efnahagssvæða á borð við Kína, Brasilíu og Mexíkó. Í gegnum tíðina hefur Alþjóðagjaldeyrissjóðnum verið stýrt af Evrópubúa, á meðan Alþjóðabankanum hefur verið stýrt af Bandaríkjamanni.

Rússar hafa tilnefnt Josef Tosovsky, fyrrum seðlabankastjóra Tékklands, í stöðuna. Bretland hefur hins vegar lýst yfir stuðningi við að sett sé af stað opið ferli sem miði að því að finna hæfasta manninn í stöðuna, burtséð frá þjóðerni hans.

Juncker segir hinsvegar að Strauss-Kahn sé vel þekktur umbótasinni og muni aðlaga IMF að væntingum og hagsmunum þróunarlanda.