Sjóðstjóri fjárfestingafélagsins Legg Mason Inc., næststærsta hluthafa Yahoo, sagði að Microsoft þyrfti að hækka tilboð sitt ætli það að koma höndum yfir netfyrirtækið. „Við teljum að Microsoft þurfi að koma með betra tilboð ætli þeir að loka samningnum,” sagði sjóðstjórinn Bill Miller, en Legg Mason á 6% í Yahoo, en Bloomberg greinir frá þessu.

Tilboð Microsoft hljóðaði upp á 31 dollara á hlut, en það var 62% yfir dagslokagengi félagsins daginn áður en tilboðið barst. „Yahoo gæti hins vegar reynst erfitt að halda sjálfstæði sínu, þar sem stjórn félagsins þarf að finna leiðir til að auka verðmæti hluthafa umfram það sem Microsoft er tilbúið að bjóða þeim fyrir bréf sín,” sagði Miller í bréfi til annarra hluthafa.

Microsoft sagði í yfirlýsingu í gær að tilboðið í Yahoo hefði verið sanngjarnt í kjölfar stjórn Yahoo sagði að tilboðið undirmæti félagið stórlega.