Á sama tíma og Evrópusambandið (ESB) nálgast hálfrar aldar afmæli sitt næstkomandi sunnudag sýnir ný skoðanakönnun að 44% íbúa fimm stærstu ríkja ESB telji að líf þeirra hafi farið versnandi frá því að landið þeirra gekk inn í sambandið. Skoðanakönnunin, sem breska blaðið Financial Times lét gera fyrir sig dagana 28. febrúar til 12. mars, sendir einnig þau skilaboð til ráðamanna ESB að þeir þurfi að endurskoða afstöðu sína um að stefna beri að enn nánara sambandi (e. ever closer union).

Aðeins fjórðungur almennings í fimm stærstu ríkjum ESB - Þýskalandi, Frakklandi, Bretlandi, Spáni og Ítalíu - telur að líf sitt hafi batnað frá því að þjóð þeirra gerðist aðili að sambandinu. En þrátt fyrir að skoðanakönnunin undirstriki þá almennu neikvæðni sem ríkir gagnvart Evrópusambandinu, þýðir það ekki að meirihluti aðspurða vilji að þjóð þeirra gangi úr ESB. Að meðaltali sögðust eingöngu 22% í ríkjunum fimm vera á þeirri skoðun að þjóð sín yrði betur sett ef hún myndi segja sig úr ESB, á móti 40% sem töldu að það yrði verr sett.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.