NTC-samstæðan sem á og rekur fataverslanir Gallerí Sautján og tengd fyrirtæki, tapaði 90 milljónum króna á síðasta ári. Þetta er talsverður viðsnúningur á milli ára en árið 2011 nam hagnaður félagsins tæpum 457 milljónum króna.

Fram kemur í uppgjöri NTC fyrir síðasta ár að vörusala nam rúmum 1.889 milljónum í fyrra samanborið við tæplega 1.977 milljónir árið 2011. Samdrátturinn nam rúmum 4,4% á milli ára. Framlegð nam 762,4 milljónum króna hjá NTC í fyrra en var tæpum 842,2 milljónum króna árið 2011. Þá segir í uppgjörinu að rekstrartap fyrir fjármunatekjur og gjöld nam 83,7 milljónum króna í fyrra borið saman við næstum 250 milljóna króna rekstrartap árið 2011.

Eignir NTC-samstæðunnar drógust nokkuð saman á milli ára. Þær námu 744,3 milljónum króna um síðustu áramót borið saman við 910,5 milljónir undir lok árs 2011. Eigið fé NTC-samstæðunnar var neikvætt um 46,5 milljónir króna en var jákvætt um 43,3 milljónir árið 2011. Munar þar mestu um 168 milljóna króna ójafnað eigið fé NTC. Á móti námu skuldir 790,9 milljónum króna borið saman við 867 milljónir við árslok 2011. Þar af námu skuldir við lánastofnanir 412,6 milljónum króna. Svava Johansen á 54% hlut í NTC á móti 46% hlut félagsins Sautján ehf.