Sá hlutur sem Sund var tímabundið látið halda á í Northern Travel Holding (NTH) hélt áfram að valda Fons og FL Group vandræðum eftir að NTH var látið „kaupa“ hlutinn sjálft í árslok 2007.

Í gögnum sem Viðskiptablaðið hefur undir höndum, og fjalla um lánaviðskipti Glitnis til Fons og tengdra félaga, er að finna lánasamning félags sem kallaðist M21 ehf. Félagið var að fullu í eigu Fons. Lánið sem Glitnir veitti félaginu var upp á 2,8 milljarða króna og var veitt 1. febrúar 2008, átta mánuðum fyrir bankahrun. Lárus Welding stýrði þá Glitni.

Samkvæmt lánasamningnum átti að ráðstafa láninu til að kaupa um 22% hlut í NTH af félaginu sjálfu, en það er sá hlutur sem áður hafði verið í eigu Sunds.  Ekki hefur verið greidd ein króna af umræddu láni Glitnis til M21 ehf.

Lánveiting Glitnis til M21 ehf. var í raun lokahnykkurinn á hringekkju sem var sett upp til að losa Baug undan sölutryggingu á hlut Sunds í NTH. M21 var algjörlega eignarlaust félag og einu veðin sem sett voru fyrir láninu voru hin keyptu hlutabréf, sem í dag eru  verðlaus.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í þriðja og síðasta hluta ítarlegrar úttektar Viðskiptablaðsins á NTH-fléttunni svokölluðu.

_____________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .