FL Group, sem þá hafði tekið upp nafnið Stoðir,  óskaði eftir greiðslustöðvun sama dag og íslenska ríkið þjóðnýtti Glitni, þann 29. september 2008, en stór eignarhluti í Glitni var stærsta eign félagsins. Stoðir/FL Group tapaði samtals um 351 milljarði króna á árinu 2008.

Kröfuhafar félagsins ákváðu að halda því lifandi og keyrðu það í gegnum fjárhagslega endurskipulagningu. Henni lauk um mitt ár 2009 samhliða nauðasamningum við kröfuhafa sem í kjölfarið eignuðust allt hlutafé í Stoðum. Fjölmargir, og þá sérstaklega þeir sem áttu hlutabréf eða skuldabréf í Stoðum/FL Group, töpuðu gífurlegum fjárhæðum á falli félagsins. Í ársreikningi Stoða fyrir árið 2009 kemur fram að kröfuhafar hafi gefið eftir samtals 212 milljarða króna af skuldum.

Eignir félagsins, sem eru aðallega 99,9% hlutur í Tryggingarmiðstöðinni og 40% hlutur í Refresco, voru metnar á 33,5 milljarða króna í lok síðasta árs. Skuldir félagsins, sem eru allar til langs tíma, námu 10 milljörðum króna eftir skuldauppgjöf kröfuhafanna. Stærstu eigendur Stoða/FL Group í dag eru skilanefnd Glitnis, Landsbankinn og Arion banki.

Fons

Fons var tekið til gjaldþrotaskipta í apríl 2009. Skuldir félagsins námu um 40 milljörðum króna en það var eignarlaust að mestu. Fengur, annað félag í eigu Pálma Haraldssonar, hafði keypt ýmsar eignir út úr Fons áður en félagið var sett í þrot. Á meðal þeirra eigna eru Iceland Express, Astraeus og Hekla Travel. Skiptastjóri þrotabús Fons hefur höfðað ellefu riftunarmál á hendur Pálma og krefst þess að hann greiði sér tæpa níu milljarða króna vegna ýmissa gjörninga sem framkvæmdir voru inni í Fons áður en að félagið var sett í þrot.

Sund

Eignarhaldsfélagið Sund ehf. breytti nafni sínu í Icecapital eftir bankahrun og starfar enn. Félagið átti eignarhluti í Byr sparisjóði og VBS fjárfestingabanka, sem báðir hafa verið teknir yfir af Fjármálaeftirlitinu. Sú eign hefur því tapast. Lítið hefur farið fyrir þeim Jóni Kristjánssyni og Páli Þór Magnússyni, helstu eigendum og stjórnendum félagsins, eftir bankahrun.

Northern Travel Holding

Stjórn Northern Travel Holding (NTH) óskaði eftir því í ágúst 2009 að félagið yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Einu eignirnar sem eftir voru inni í NTH voru flugfélagið Sterling og fasteignafélagið Flyselskapet, sem bæði voru þá þegar gjaldþrota. Allar aðrar eignir höfðu verið seldar til Fons, eignarhaldsfélags Pálma Haraldssonar og Jóhannesar Kristinssonar. Fons seldi þær síðan áfram til Fengs, eignarhaldsfélags Pálma. Því var ekkert eftir inni í NTH nema skuldir og gjaldþrota félög.

Sterling

Sterling var lýst gjaldþrota, nokkuð fyrirvaralaust, þann 29. október 2008. Þúsundir farþegar sem áttu bókað flug með félaginu víðsvegar um heiminn urðu strandaglópar. Stjórnendur félagsins sáu ekki aðra kosti í stöðunni en að lýsa yfir gjaldþroti þar sem allt rekstarfé Sterling var uppurið.

Hin félögin

Iceland Express, Astreus  og Hekla Travel voru seld út úr Fons til Fengs og annarra félaga í eigu Pálma Haraldssonar. Þau eru því enn í rekstri og í eigu Pálma.

Ticket Travel Group tengist ekki lengur íslensku viðskiptalífi. Þrotabú Fons seldi 29,26% hlut sinn í ferðaskrifstofunni til Braganza AS í maí 2009 á um 620 milljónir íslenskra króna á gengi söludagsins.

_________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .