Bretland stendur frammi fyrir nýrri hryðjuverkaógn, þar sem árásir íslamskra öfgamanna hvetja aðra öfgamenn til að fremja hryðjuverk. Þetta segir Th­eresa May, for­sæt­is­ráðherra Bret­lands, sem boðar aðgerðir gegn hryðjuverkaógninni. Sjö eru látn­ir eft­ir árás­ir í London í gær­kvöldi en lög­regla skaut þrjá menn til bana sem grunaðir eru um að hafa staðið á bak við árás­irn­ar.

„Við getum ekki og megum ekki þykjast að hlutirnir geti haldið svona áfram,“ sagði May í yfirlýsingu við Downing stræti fyrr í dag. „Það er allt of mikið umburðarlyndi í garð öfgahópa í landinu.“

Benti May á að lögreglunni hafi tekist að koma í veg fyrir fimm tilraunir til árása frá því að Westminster árásin átti sér stað í mars, þegar maður ók á vegfarendur nærri þinghúsunum og varð fjórum að bana, auk þess að stinga lögreglumann til bana.

Árásin í London í gærkvöldi er þriðja hryðjuverkaárásin í Bretlandi á skömmum tíma. Fyrir utan árásina í London í gærkvöldi og árásina í Westminster átti sér stað árás í Manchester í síðasta mánuði, þegar maður sprengdi sig í loft upp eftir
tónleika Ariönu Grande í Manchester Arena í Manchester. Í hið minnsta 35 manns hafa látið lífið í þessum árásum.

Aðgerðirnar sem May boðar munu snerta fjögur svið:

  1. Takast á við hugmyndafræði íslamskra öfgahópa og leggja áherslu á „fjölhyggjuleg bresk gildi“.
  2. Vinna með þjóðum heimsins í að neyða netfyrirtæki til að hætta að veita „örugg svæði“ fyrir öfgamenn á netinu.
  3. Takast á við „örugg svæði“ í raunheimi og stöðva umburðarlyndi í garð öfgahópa í landinu, sérstaklega meðal opinberra stofnana.
  4. Endurskoða hryðjuverkalöggjöf landsins, m.a. með lengri fangelsisdómum fyrir sumar tegundir brota.

Gengið er til þingkosninga í Bretlandi á fimmtudaginn. Íhalds­flokk­ur­inn, Verka­manna­flokk­ur­inn, Skoski þjóðarflokk­ur­inn og Græn­ingj­ar hafa öll frestað sinni kosn­inga­bar­áttu í dag, en ekki UKIP.