„Nú er verið að leita að olíu á skrifborðinu. En fyrstu skipin gætu komið hingað næsta sumar og við það hafist 2-4 ára tímabil rannsóknarvinnu,“ að sögn Hauks Óskarssonar, framkvæmdastjóra iðnaðar hjá verkfræðistofunni Mannviti. Hann flutti erindi um áhrifin á virðiskeðjuna á Íslandi, áhrifin á íslenskt efnahagslíf og tækifærin sem felast í olíuvinnslu úti fyrir ströndum landsins á fundi Félags viðskiptafræðinga og hagfræðinga nú í hádeginu. Haukur benti á að enn væri margt eftir að gera þar til hægt verði að segja að eiginleg olíuleit geti hafist. Nú sé unnið undirbúningi, þ.e. við skrifborðið.

Aðrir frummælendur á fundinum voru þeir Heiðar Már Guðjónsson, stjórnarformaður Eykon Energy, og Gunnar Karl Guðmundsson, framkvæmdastjóri Milu sem jafnframt er stjórnarmaður í félaginu KNI, stærsta smásölu- og dreifingarfyrirtæki Grænlands.

Að loknum erindum allra frummælenda sagði Haukur að eftir að rannsóknartímabilinu lýkur eftir 2-4 ár þá megi vænta þess að þrívíddarmódel verði til af svæðinu. Í kjölfarið gæti einhverra áhrifa farið að gæta í atvinnulífinu hér.

36 holur þurfti að bora í Noregi

Haukur benti á að þrátt fyrir talsverðar rannsóknir á Drekasvæðinu allt frá byrjun níunda áratugar síðustu aldar þá sé allsendis óvíst hvort vinnanlegt magn olíu sé að finna þar eða jarðgas sem sé erfiðara að vinna. Rannsóknarborholur hafi ekki verið boraðar. Til samanburðar hafi verið boraðar 36 holur í Noregi áður en olía fannst þar og 12 við Færeyjar. Þegar olía svo finnst þarf að ákveða hvaða tækni verður notuð við olíuframleiðsluna. Finnist svo gas þarf að taka ákvörðun um hvort það borgi sig að vinna það, að sögn Hauks.