Verð á Brent olíu hefur fallið um 22% það sem af er degi. Kosta olíutunnan nú tæplega 20 dollara en fór verðið lægst í 18,10 dollara. Er þetta í fyrsta skiptið í 18 ár sem verð á Brent olíu fer undir 20 dollara.

Í gær féll verð á bandarískri olíu , West Texas Intermediate ( WTI ), sem afhenta á í maí samkvæmt framvirkum samningum, um 310%. Var verðið orðið neikvætt um tæplega 40 dollara en í dag hefur markaður með þessa olíu tekið við sér og stendur verð á WTE -olíutunnu, sem á að afhenta í maí, nú í 3,75 dollurum. Framvirkir samningar, sem kveða á um afhendingu í júní, hafa fallið um þriðjung í dag og stendur verðið nú í 13,8 dollurum.

Verð á olíu byrjað að lækka vegna verðstríðs Rússa og Sádi -Araba en þjóðirnar juku olíuframleiðslu töluvert fyrir nokkrum vikum. Nú eru áhrif heimsfaraldursins farin að segja verulega til sín en samkvæmt frétt the Financial Times í dag hefur eftirspurn eftir hráolíu dregist saman um allt að þriðjung. Ferða- og útgöngubann er í gildi um víða veröld og hefur það mikil áhrif á olíumarkaðinn. Einungis brot af farþegaflugvélum eru í notkun,  skemmtiferðaskip eru bundin við bryggju og fólk er lokað inni í húsum

Vegna lítillar eftirspurnar eru allar olíugeymslur að fyllast. Talið er að eitt af hverjum tíu olíuskipum sé beinlínis notað sem fljótandi olíugeymsla í dag.