Hópfjármögnun er hafin á síðunni Indiegogo þar sem markmiðið er að safna fé til að hjálpa gríska ríkinu að standa skil af 1,6 milljarða evra afborgun af láni frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um undanfarna daga er gjalddaginn í dag og stefnir gríska ríkið í greiðsluþrot að öðru óbreyttu.

Yfir 11.000 manns hafa lagt sitt af mörkum og hafa 180.000 evrur þegar safnast. Það gera 0,01% af þeirri upphæð sem Grikkir þarfnast. Í Evrópusambandinu búa 503 milljónir manna og því myndi markmið söfnunarinnar nást ef sérhver íbúi sambandsríkjanna gæfi af hendi rúmlega þrjár evrur í söfnunina. Aðstandandi söfnunarinnar hefur reiknað út að fyrir sömu upphæð sé hægt að kaupa sér lítið glas af bjór í London.

Samkvæmt þeim sem stendur að söfnuninni fær sérhver sá sem leggur af hendi 3 evrur póstkort frá Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands. Fyrir 6 evrur fæst grískt feta- og ólívusalat. Fyrir 10 fæst lítil flaska af gríska drykknum ouzo og fyrir 25 evrur fæst flaska af grísku víni.

Sá sem stendur að söfnuninni er 29 ára starfsmaður í skóverslun frá York í Englandi. Hægt er að borga með PayPal eða kreditkorti.