Íslenska krónan, sem hefur staðið sig einna verst á gjaldeyrismarkaði á fyrri hluta árs 2006, styrkist nú þegar erlendir vogunarsjóðir sækja meira í íslensk skuldabréf, segir í frétt dagblaðsins International Herald Tribune, sem byggir á frétt Bloomberg fréttastofunnar.

Erlendir bankar hafa haldið áfram að gefa út krónubréf, og á föstudaginn síðastliðinn tilkynnti alþjóðlegi fjárfestingabankinn HSBC um útgáfu fyrir þrjá milljarða króna.

Krónan hefur styrkst um meira en 10% gagnvart Bandaríkjadal sem af er þriðja ársfjórðungi, segir í fréttinni, en styrkingin verður að hluta til vegna lánatöku fjárfesta í löndum þar sem vextir eru lágir og þeir nýta sér þannig vaxtamun á Íslandi. Stýrivextir Seðlabanka Íslands eru 13,5%. Í fréttinni segir að ávöxtunin geti verið í kringum 13,9%.

?Gengi krónunnar gæti hækkað um 6% í viðbót fyrir lok árs, í kjölfar hægingar á hagvexti í Bandaríkjunum og Japan," sagði Momtchil Pojarliev, forstjóri gjaldeyrissviðs Pictet bankans í Genf.

?Nú gæti verið rétti tíminn til að kaupa krónuna, gengið er nú mjög hagstætt og er ég nokkuð bjartsýnn um framhaldið," sagði Pojarliev.

Talsmenn Matsfyrirtækisins Fitch Ratings segja að krónan hafi ekki enn rétt sig af og að neikvæðar horfur á lánshæfismati íslenska ríkisins sé enn viðeigandi.