Zhongkun Grímsstaðir ehf., félag Huang Nubo, sem sótt hefur um leyfi til að reisa hótelmannvirki á leigulóð í landi Grímsstaða á Fjöllum, hefur tilkynnt nefnd fjögurra ráðherra að félagið hyggist leggja fram frekari gögn vegna umsóknar sinnar. Um leið hefur verið óskað eftir því að ráðherranefndin taki ekki afstöðu til fyrirhugaðs fjárfestingarsamnings milli Zhongkun og íslenskra yfirvalda fyrr en þau hafa verið lögð fram. Þetta kemur fram í bréfi sem Halldór Jóhannesson, framkvæmdastjóri félagsins og aðstoðarmaður Nubo hér á landi sendi til Steingríms J. Sigfússonar, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra.

Ráðherra má búast við að umrædd viðbótargögn og upplýsingar berist ráðuneytinu á næstu mánuðum eftir því sem fram kemur í bréfinu.

Í ljósi umræðu og ábendinga, sem fram hafa komið á þeim tíma sem viðræður hafa staðið yfir, vill Zhongkun leitast við að skýra áform sín frekar og kynna ítarlegar þegar framangreind gögn vegna áforma félagsins um fjárfestingu í íslenskri ferðaþjónustu liggja fyrir eftir því sem fram kemur í tilkynningu sem félagið sendi frá sér.