„Málið verður metið í ljósi þess hvað kemur út úr þessari vinnu,“ segir Halldór Jóhannsson, talsmaður kínverska auðmannsins Huangs Nubo á Íslandi. Halldóri finnst jákvætt að vinnu nefndarinnar hafi verið flýtt. Nú bíði hann bara eftir því að sjá hvaða tillögur verði lagðar fram. „Við verðum bara að bíða rólegir á meðan.“

Eins og áður hefur komið fram hefur Nubo lýst sig reiðubúinn að leggja í 15 milljarða króna uppbyggingu á Grímsstöðum á Fjöllum. Fram kom í Viðskiptablaðinu í síðustu viku að nefnd, sem á að skoða lög og reglur um fjárfestingar og afnotarétt útlendinga á fasteignum, er að hefja störf þessa dagana. Upphaflega átti nefndin að skila tillögum í apríl en þeirri vinnu hefur verið flýtt. Nú á hún að skila af sér í janúar.

Spurður hvort hann sé bjartsýnn á framhaldið segir Halldór: „Ætli það sé ekki best að hafa sem fæst orð um það. Þetta er búið að taka langan tíma og er að mörgu leyti sérkennilegt mál. Við vorum langt komnir með samninga við sveitarfélögin og drög að þeim samningum liggja fyrir. En nú verðum við að bíða og sjá hvers konar reglugerð kemur út úr þessari endurskoðun.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér .