Kínverski fjárfestirinn Huang Nubo er eftirsóttur af Íslendingum með viðskiptahugmyndir. Halldór Jónsson, landslagsarkitekt og talsmaður kínverska fjárfestisins Huang Nubo hér á landi, segir hundruð Íslendinga hafa sett sig í samband við sig og óskað eftir þátttöku Nubos í fjárfestingum hérlendis. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu.

„Það er einnig sótt að honum frá öðrum þjóðlöndum og óskað eftir hans nærveru í fjárfestingar. Ég veit ekki hversu lengi hann er tilbúinn að bíða eftir Íslandi,“ segir Halldór í samtali við Morgunblaðið. „Ég verð því miður alltaf að svara áhugasömum Íslendingum á sama hátt, því við erum enn að bíða eftir svari frá íslenskum stjórnvöldum. Við vitum ekki enn hvort fjárfestingar Nubo eru velkomnar eða ekki.“ Hann segist óánægður með framgöngu íslenskra stjórnvalda í málefnum Nubo.