Kínverski fjárfestirinn Huang Nubo, sem hefur sýnt Grímsstöðum á Fjöllum mikinn áhuga, gengur þessa dagana á Everest. Hann hefur dvalið í sömu grunnbúðum við fjallið og íslenski fjallaleiðsögumaðurinn Leifur Örn Svavarsson sem stefnir á toppinn.

Greint er frá fjallgöngu Nubo á vef Fjallaleiðsögumanna í dag. Þar er greint frá því að Nubo gengur á toppinn í annað sinn og í kringum hann sé álíka mikið af starfsmönnum og allan 13 manna hópinn sem Leifur er í þessa dagana.

„Þessi tiltekni Kínverji er með marga sherpa, kokka og mikið af súrefni til þess að gera gönguna sem þæginlegasta. Þegar hann fór á toppinn í fyrsta sinn þá lagði hann af stað um miðja nótt í svarta myrkri með fullt af sherpum og helling af súrefni. Gangan gekk það vel fyrir sig að hann náði toppnum fyrir sólarupprás en hann var það snemma á ferðinni að hann þurfti að snúa við aftur af toppnum í myrkri án þess að ná mynd á toppnum. Nú ætlar hann semsagt að fara aftur til þess að ná mynd af sér á toppi veraldar,“ segir í nýjustu færlsu um ferðalag Leifs, og Kínverjann sem einnig stefnir á toppinn.

„Kínverjinn vill ekki nota fixuðu línurnar sem sherparnir leggja fyrir alla hópana á svæðinu. Hann lætur leggja sér línur fyrir sig þar sem hann treystir ekki hinum línunum og finnst þær vera of brattar, en hann vill hafa línurnar meira aflíðandi. Þessi Kínverji er Íslendingum vel kunnugur en þetta er enginn annar en sjálfur Huang Nubo.“

Fylgjast má með göngu Leifs hér .