Huang Nubo lagði eina milljón dollara, tæpar 120 milljónir króna, í kínversk íslenska menningarsjóðinn árið 2010. Tólf milljónir af fénu átti að fara í að halda árlega bókmenntahátíð, segir í frétt á vef norska ríkisútvarpsins .

Slík hátíð verður nú haldin á landamærum Noregs og Rússlands dagana 20-22 ágúst. Þann 20. Ágúst fara því samísk, íslensk, finnsk og kínversk skáld og bókmenntagagnrýnendur til að taka þátt í hátíðinni.

Á vef norska ríkisútvarpsins er greint frá því að ástæðan fyrir þessum fjárframlögum Nubos sé ást hans á bókmenntum og Íslandi. Það eigi allt saman rætur sínar að rekja til þess þegar hann og Hjörleifur Sveinbjörnsson, eiginmaður Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, voru herbergisfélagar í Háskólanum í Peking.

Þegar kalt hafi verið í veðri hafi Hjörleifur skrifað móður sinni bréf. Hún hafi þá prjónað ullarpeysur á þá báða og sent þeim. Eftir það hafi Nubo sagt að hann standi í þakkarskuld við Íslendinga. Náttúran á Íslandi hrífi hann og veiti honum innblástur í eigin ljóðaskrif.

Huang Nubo er þekktastur hér á landi fyrir áhuga sinn á því að vilja kaupa jörð á Grímsstöðum á Fjöllum.