Kínverski auðmaðurinn Huang Nubo skoðar nú fjárfestingakosti í Danmörku og Kína. Hann hafði sótt um undanþágu til að kaupa jörðina Grímssstaði á Fjöllum. Innanríkisráðuneytið hafnaði beiðni hans í nóvember í fyrra. Í kjölfarið lýsti hann því yfir að hann væri hættur við öll áform sín um fjárfestingu hér. Stjórnvöld lýstu því hins vegar yfir að þau vildu ræða áfram við hann í því skyni að af áætlunum hans yrði.

Í netmiðlinum GlobalPost er fjallað um áform auðmannsins hér og þau vonbrigði sem hann varð fyrir þegar stjórnvöld höfnuðu beiðni hans. Þá kemur fram að raunveruleg ástæða þess að honum var vísað frá væru tengsl hans við kínverska kommúnistaflokkinn frekar en að hann væri útlendingur sem vilji kaupa land. „Kannski er heimurinn ekki tilbúinn til að viðurkenna kínverska frumkvöðla,“ hefur miðillinn eftir honum.

Bloomberg-fréttastofan hafði sömuleiðis eftir Huang Nubo um áramótin að hann hyggist fara út í álíka framkvæmdir á hinum Norðurlöndunum og hann hafi haft á teikniborðinu hér; lúxushótel sem þó verði minni í sniðum en reisa átti hér. Áætlaður kostnaður nemur tugum milljóna dala, að sögn Bloomberg. Gert var ráð fyrir að kostnaður við byggingu lúxushótela hér myndi nema allt að 200 milljónum dala, í kringum 20 til 25 milljarða króna.