Kínverjinn Hung Nubo sem sýnt hefur landssvæðinu á Grímsstöðum á Fjöllum áhuga hefur stofnað félagið Zhongkun Europe ehf. Félagið er skráð á Skipagötu á Akureyri en Nubo er formaður stjórnar félagsins. Í stjórninni er einnig Sochen Huang og Hong Xu. Framkvæmdastjóri félagsins er Halldór Jóhannsson, talsmaður Nubo hér á landi.

Í Lögbirtingablaðinu kemur fram að tilgangur félagsins sé eignarhald, kaup og viðskipti með hlutabréf, hluti í félögum, önnur verðbréf og hvers kyns önnur fjárhagsleg verðmæti; rekstur fasteigna; lánastarfsemi og skyldur rekstur.

Skráðir stofnendur félagsins eru félögin Beijing Zhongkun Investment Group og Beijing Toreador Investment Co samkvæmt Lögbirtingablaðinu.

Eins og áður hefur verið fjallað um hefur Nubo sýnt því mikinn áhuga að setja á fót ýmsan rekstur á borð við hótel og golfvöll á Grímsstöðum á Fjöllum. Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra neitaði Nubo um leyfi til að kaupa landsvæði í gegnum einkahlutafélagið Beijing Zhongkun Investment Group en nú er stefnan sett á að landsvæði á Grímsstöðum á Fjöllum verði tekið á leigu af félagi Nubo til lengri tíma. Félaginu sem var neitað um kaupin er annar eiganda hins nýja félags.