Kínverski auðjöfurinn Huang Nubo er sagður hafa lagt fram til boð í 216 ferkílómetra svæði við Spitsbergen á Svalbarða upp á 24 milljónir norskra króna, jafnvirði tæpra 460 milljóna íslenskra. Norska ríkisútvarpið ( NRK ) segir hann hafa áform um að byggja þar upp hótelgistingu og aðra aðstöðu fyrir auðuga ferðalanga. Hann hafði svipuð áform upp á Grímsstöðum á Fjöllum.

Jörðin hefur verið til sölu síðan undir lok apríl. Hún er nú í eigu Horn-fjölskyldunnar sem stýrir nokkrum fyrirtækjum, s.s. í námavinnslu, lyfjaiðnaði, skipaflutningum og í verktakageiranum. Kolanámur eru einmitt á landinu sem Nubo vill kaupa og segir NRK að hægt verði að vinna kola þar næstu 20 árin.

Erlendir fjölmiðlar hafa vitnað til viðtals Nubo við NRK en benda á að hann hafi ekki gefið mikið upp um áform sín. Þá virðist sem Nubo hafi ekki áttað sig á aðstæðum, s.s. kuldanum og því hvernig landsvæðið er. Þá mun hann hafa sagt í samtali við NRK ekki hafa gert sér grein fyrir því hvað mikill ís er á svæðinu.

Á Svalbarða búa fleiri ísbirnir en menn eða 3.000 ísbirnir á móti 2.400 íbúum.