Það er óskynsamlegt að haga þorskveiðum eftir núgildandi aflareglu ef marka má útreikninga Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um þjóðhagsleg áhrif aflareglu, en stofnunin kynnti niðurstöður sínar fyrir fjölmiðlum í gær. Samkvæmt niðurstöðum Hagfræðisstofnunar er hagkvæmasta aflareglan, þ.e. er sú aflaregla sem fer nærri því að hámarka núvirði þjóðhagslegs arðs af þorskveiðum, ekki fasti eins og nú er, heldur breytileg. Hagkvæm aflaregla kveður á um að engar þorskveiðar verði leyfðar á næsta fiskveiðiári.


"Samkvæmt núgildandi aflareglu væri aflinn 178 þúsund tonn og það finnst okkur of mikið og verulega áhættusamt. Ef við hugsum eingöngu um hagkvæmni þá ættum við ekki að veiða neitt. Ef við tökum hins vegar tillit til byggðasjónarmiða og raunverulegra aðstæðna þá ættum við að reyna veiða eins lítið og við mögulega getum komist af með," sagði Ragnar Árnason, prófessor í hagfræði, sem ásamt Gunnari Haraldssyni, forstöðumanni Hagfræðistofnunar, kynnti efni rannsóknarinnar.


"Ef við fylgjum tillögum Hafrannsóknarstofnunar og veiðum í krinum 130 þúsund tonn þá er það nokkuð örugg leið og líkurnar á aflahruni verða mjög litlar, en það þýðir samdrátt í landsframleiðslu upp á 0,5-1%. Á móti kemur að það mun taka lengri tíma að byggja upp þorskstofninn en ef við göngum lengra. Það verður að líta á þetta sem fjárfestingu því það er þjóðhagslega hagkvæmt að draga úr veiðunum núna. Þannig aukum við auðlegð Íslendinga í dag, uppskeran kemur svo eftir einhvern tíma, en hvort það verður eftir 3, 5 eða 7 ár fer eftir því hvernig hlutirnir gerast í hafinu," sagði Ragnar ennfremur.