Endurreistu bankarnir, Landsbankinn, Arion banki og Íslandsbanki, hafa allir verið að auka umsvif sín í atvinnulífinu að undanförnu. Bankarnir fara nú með eignarhluti í á annan tug fyrirtækja, ýmist að öllu leyti eða hluta. Þá er óbein eignaraðild þeirra að öðrum fyrirtækjum í gegnum eignarhaldsfélög algeng.

Mörg þeirra félaga sem bankarnir hafa yfirtekið eftir bankahrunið voru stórskuldug og með óviðráðanlega rekstrarstöðu. Bankarnir hafa þó ekki klárað að greiða úr þessari stöðu nema að litlu leyti. Nýlega gekk Arion banki frá málum er vörðuðu stærsta smásölufyrirtæki landsins, Haga, sem á og rekur stærstu matvælaverslanir landsins. Hagar hafa verið í eigu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og fjölskyldu um árabil. Bankinn hefur nú yfirtekið 95,7% hlut í 1998 ehf. sem á félagið Gaum, eiganda Haga. Eftir samningaviðræður milli eigenda og stjórnenda Haga, og Arion banka, varð niðurstaðan sú að veita eigendum og stjórnendum Haga forkaupsrétt að 15% hlut í fyrirtækinu í opnu söluferli. Stefnt er að skráningu félagsins í Kauphöll Íslands síðar á þessu ári. Jóhannes Jónsson er nú starfandi stjórnarformaður fyrirtækisins og verður áfram.

Núllstilltar skuldir Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins töldu sumir sem höfðu málefni Haga til umfjöllunar á fundum að það styrkti samningsstöðu eigenda og stjórnenda Haga að skuldir 1998 ehf. væru að stóru leyti afskrifaðar í efnahagsreikningi Arion banka. Þegar bankinn var endurreistur var virði útlána, sem færð voru frá föllnu bönkunum, metið með misjöfnum hætti, allt eftir því hversu miklar líkur voru taldar á fullri endurheimtu. Arion banki sat upp með stór áhættuútlán, eins og til 1998 og Kjalars, félags Ólafs Ólafssonar, sem nær útilokað var talið að gætu fengist til baka. Í ljósi  þess að eigið fé bankans er um 72 milljarðar hefði afskrift fullmetinna skulda 1998 og Kjalars, einar og sér, nægt til þess að gera eigið fé bankans neikvætt um tæplega 20%. Samtals nema skuldir félaganna nálægt 130 milljörðum. Skuldir þessara félaga voru nær alveg afskrifaðar í upphaflegum efnahagsreikningi, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins, til þess að gera efnahagsreikninginn traustari. Þó er reynt eftir fremsta megni að endurheimta lánin. Endanleg bókhaldsleg afskrift verður þó aldrei fyrr en gengið hefur verið að öllum eignum sem eru til tryggingar fyrir lánunum.

Á fundum með stjórnendum Arion banka lögðu eigendur og stjórnendur Haga áherslu á þeir væru best til þess fallnir að reka félagið áfram, ekki síst í ljósi þess að bankinn þyrfti ekki að hafa áhyggjur af skuldum 1998. Þær væru hvort eð er ekkert áhyggjuefni fyrir Arion banka, þar sem efnahagsreikningurinn gerði ekki ráð fyrir endurheimtum á skuldunum. Þeir sögðu því að eigendur og stjórnendur Haga væru best til þess fallnir að reka Haga áfram, til þess að tryggja að félagið myndi greiða til baka allar sínar skuldir. Að lokum fór það svo að Arion banki yfirtók félagið, þar sem útilokað var að eigendur 1998 ehf. gætu borgað yfir 50 milljarða skuldir til baka. Bankinn féllst hins vegar á það sjónarmið að stjórnendur Haga, og Jóhannes, væru félaginu það mikilvægir að æskilegt væri að hafa þá við stjórnvölinn áfram og veita þeim forkaupsrétt á 15% hlut.

Svipuð staða hjá Kjalar Líkt og í tilfelli 1998 hafa skuldir Kjalars verið afskrifaðar nánast að öllu leyti í efnahagsreikningi Arion banka, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins. Aðkoma bankans að málefnum félagsins er því alltaf á þeim forsendum. Eins og greint var frá í Viðskiptablaðinu endaði langt samningaferli Ólafs og stjórnenda Samskipa með því að félag þeirra, SMT Partners BV, eignaðist félagið eftir eiginfjárframlag. Samskip hefur um árabil verið í eigu Kjalars að langstærstum hluta. Samskip skuldar Arion banka er nú nálægt átta milljörðum króna, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins. Samkvæmt lánabók Kaupþings, sem birt var á Wikileaks, skuldaði Samskipsamsteypan Kaupþingi 36 milljónir evra, eða sem nemur rúmlega 7 milljörðum miðað við núverandi gengi, skömmu fyrir hrun. Í tilfelli Samskipa stýrði Arion banki ekki málum í viðræðum við Samskip. Fortis bankinn í Hollandi, sem lánaði Samskipum fyrir kaupum á fyrirtækjum árið 2005, átti mestra hagsmuna að gæta. Eins og fram kom í Viðskiptablaðinu hefur rekstur Samskipa verið þungur undanfarin ár ekki síst vegna þess hve kaupin á fyrirtækjunum árið 2005 hafa reynst erfið.

Ógagnsæi við endurskipulagningu Í síðustu viku ræddu nefndarmenn í Viðskiptanefnd Alþingis um hvernig bankarnir stæðu að því að endurskipuleggja skuldir fyrirtækja, og eftir atvikum afskrifa þær. Hingað til hafa bankarnir ekki gefið upp hvernig einstök tilfelli eru meðhöndluð. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins voru nefndarmenn í viðskiptanefnd sammála um að gagnsæið þyrfti að vera meira. Kom fram hugmynd á fundi nefndarinnar um að gagnagrunni yrði haldið úti þar sem allir afskriftir fyrirtækja yrðu aðgengilegar. Ekki var þó einhugur um þá hugmynd þar sem bankamenn sem komu komu fyrir nefndina töldu það geta farið gegn núgildandi löggjöf um bankaleynd. Bankarnir hafir þegar yfirtekið hluti í mörgum fyrirtækjum, eins og sést á meðfylgjandi grafískri mynd. Auk þess hafa þeir haft fyrirtæki í sölumeðferð fyrir hönd kröfuhafa. Það átti m.a. við um útgerðarfélagið Festi sem selt var á dögunum fyrir rúmlega þrjá milljarða króna. Landsbankinn annaðist þá sölu fyrir hönd skiptastjóra þrotabúsins. Allir bankarnir hafa komið að sölu eigna að undanförnu sem milligönguaðili, án þess að eiga ráðandi hlut í fyrirtækjum. Þá hefur Samkeppniseftirlitið fengið 30 tilkynningar um yfirtökur eða samruna og hefur eftirlitið þær nú til skoðunar.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu sem kom út í gær.