Samkvæmt kolsvartri spá fjárfestingabankans Numis Securities í London er mjög raunveruleg hætta á að Bretland verði gjaldþrota. Þá er því spáð að fasteignaverð muni falla um 55% til viðbótar 20% verðfalli á síðasta ári.

Telegraph greindi frá þessu á fimmtudag og vísar þar til 298 síðan skýrslu Numis Securities. Er þetta sögð svartasta skýrsla sem nokkru sinni hefur verið gerð um breskan fasteignamarkað.

Þá er vísað í orð sem bankinn lét frá sér í síðasta mánuði þar sem segir að þó fasteignaverð hafi þegar fallið um 21% frá því sem það stóð hæst hafi hann enga trú á að leiðrétting markaðarins sé nærri því á enda.

Bankinn metur það svo að fasteignaverð í Bretlandi sé oftmetið um 17% til 39% miðað við eðlileg viðmið. Samt sem áður sýni sagan að þegar verðbóluleiðrétting eigi sér stað þá falli fasteignaverð niður fyrir það sem nefnt er sanngirnismat (fair valuation). Þá sé gjaldþrot landsins raunverulegur möguleiki, eða eins og segir í tilvísun Telegraph í skýrsluna:

„The bankruptcy of the UK is a very real probability as the UK Government is trying to stimulate a greater debt burden in a grossly indebted economy. We believe the scale of the macro imbalances in the UK means there is no prospect of a recovery in 2009 and we expect the UK to be mired in a deep recession through all of 2010.”