Davíð Oddsson seðlabankastjóri sagði á blaðamannafundi í Seðlabankanum nú fyrir stundu að í kjölfar gjaldeyrisskiptasamninga við norræna seðlabanka upp á samtals 1,5 milljarða evra, yrði nú unnið að því að auka gjaldeyrisforða bankans enn. Hann sagði að auðvitað væru samningarnir nú sérstök aðgerð og að það væri þakkarefni fyrir Seðlabanka Íslands að hinir norrænu bankar skyldu vilja gera samninga af þessu tagi, sem augljóslega væru nú um stundir hagfelldari fyrir íslenska bankann en þá.

Aðspurður hvort stór erlend lántaka til að styðja við íslensku bankana þýddi ekki að verið væri að velta byrðunum af þeim yfir á skattgreiðendur, sagði Davíð að þessi samningur sem nú hefði verið gerður hefði engan vaxtakostnað í för með sér. „En ef þú ert að horfa til framtíðar og á þær hugmyndir sem menn hafa haft, um stórfellda lántöku ríkisins, þá er það auðvitað svo að ríkið og almenningur, fyrir milligöngu Seðlabankans, ber af því kostnað að taka mjög stór erlend lán. Það liggur í eðli máls að Seðlabankinn varðveitir slíka peninga með mjög traustum hætti og við þær aðstæður skapast vaxtamunur sem verður ekki borinn af öðrum en skuldaranum,“ sagði hann. „Auðvitað er það svo, við lántöku af þessu tagi, að bankinn verður að hlusta á þann sem ábyrgðina ber á láninu, þ.e. ríkið, og ég er þess fullviss að ríkið mun líta mjög líkum augum á þetta og við í bankanum,“ bætti hann við.